Ég hef augu mín til fjallanna

Ég hef augu mín til fjallanna

Á laugardaginn næsta, 24.nóvember kl 16-18 opnar sýning mín, Ég hef augu mín til fjallanna, í Gallerí Göngum í Háteigskirkju. Það er oft erfitt að skrifa um sig sjálfa svo að ég fletti upp í bókinni International Kunst Heute frá 2018 þar sem ég var með þrjár myndir og sá hvað dr. Ingrid Gardill listfræðingur skrifar um myndirnar mínar.

„Litlu máli skiptir fyrir íslensku listakonuna Jóhönnu V. Þórhallsdóttur, hvort hún málar mynd af manneskju eða landslagi. Hún er jafnvíg á hvoru tveggja og markmiðið virðist vera að fanga hreyfingu og líf í málverkið. Þannig skarast þessi viðföng hennar. Í myndinni Bjart framundan (sem Jóhanna sýnir í Gallerí Göngum,) er eins og módelið stigi út úr sjálfri náttúrunni eða af engi. Jóhanna fangar anda sumarsins í gulum líkama konunnar með rauðum titrandi útlínum. Axlir og höfuð hverfa inn í bakgrunninn og leysast upp og renna saman við umhverfið. Með sama léttleika túlkar hún vöxt og blóma jarðar á léreftið.
Í myndinni Óvissa á Öræfajökli (sem hún sýnir einnig í Göngum,) eru fíngerð vinnubrögð í forgrunni en áhorfandinn finnur fyrir óróleika undir yfirborðinu. Hvítur jökullinn rennur á mörgum stöðum saman við bláma himinins og á neðri hluta myndarinnar verður jökull og jörð eitt. Samspil litanna rís úr djúpum jarðar og gefur jöklinum torkennilega eiginleika. Hér sjáum við þann kraft og léttleika sem listakonan gæðir lífi og er svo einkennandi fyrir hana.“

Ég lauk tveggja ára myndlistarnámi hjá Markúsi Lüpertz 2017 og hóf nám hjá Heribert Ottersbach í haust. Einnig stundar ég nám hjá Stephen Lárus Stephen í Myndlistaskóla Kópavogs. Aðrir kennarar mínir hafa verið ma; Jón Axel Björnsson, Bjarni Sigurbjörnsson, Sara Vilbergsdóttir í Myndlistaskóla Kópavogs og Margrét Blöndal og Sigtryggur Bjarni Baldvinsson í Myndlistaskóla Reykjavíkur
Þetta er 7. sýningin í Gallerí Göng/um og er hún opin út desember alla virka daga kl 10-16 og á sunnudögum kl 11-12, eða á messutímum.

80x80 acryl on canvas