Samsýning í ARTgallery GÁTT

Samsýning "Við skulum þreyja, Þorrann og hana Góu"

Þessa ræðu flutti ég á opnun samsýninganna í gær, 20.janúar í ARTgallery GÁTT

Ágætu gestir!

Mig langar til að bjóða ykkur öll hjartanlega velkomin til þessarar fyrstu sýningar af þremur örsýningum hér í Gallerí Gátt, undir yfirskrftinni “Við skulum þreyja, þorrann og hana góu”. Þorrinn hófst í gær og fyrir margan búandann skipti mestu að þeyja þorrann og góuna en síðan kæmi betri tíð með hækkandi sól og vorkomunni. Nú eru breyttir tímar og óttinn við þorrann tengist fyrst og fremst visareikningum frá því í desember sem skellur venjulega í lok janúar. Menn óttast ekki nein harðindi heldur fjallar umræðan um hlýnun jarðar og minnkandi jökla en ekki um Kára í jötunmóð. Við höfum mun meiri áhyggjur af matarsóun og ofgnótt matar og minnkandi rými í ruslatunnum fyrir allar plastumbúðirnar frá Kostkó, en því að búrið standi brátt autt, búið snautt.

Kvæði Kristjáns Jónssonar um Þorraþræl fjallar um ótta fólks við óblíða náttúruna og kveinstafi þess. Nútímamaðurinn kvartar ekki minna á samfélagsmiðlunum yfir lífi sínu og örlögum þó viðgfansgefnin séu gjörólík. En Kristján leggur áherslu á að þögull Þorri hlusti á harmakveinin en kæri sig kollóttan. Það á kannski líka við í dag; kvart og kvein skilar okkur ekki áleiðis.

Gallerí Gátt stendur á ákveðnum tímamótum. Reksturinn hefur verið erfiður og talsverð uppstokkun í hópi félaganna. En það þýðir ekki að væla eða barma sér heldur hugsa málin uppá nýtt í lausnum en ekki í vandamálum. Það er einmitt það sem við erum að gera og gerum lokaorð kvæðisins að okkar.

Hugarhrelling sú

Er hart þér þjakar nú

Þá mun hverfa en fleiri

Höpp þér falla í skaut.

Senn er sigruð þraut

Ég svíf á braut.

Vandamálin 2018 eru önnur og endurspeglast í þessari sýningu. Með mér sýna hér í dag:

Anna María Lind, sem saumar úr geitarull myndir sem einmitt benda á vanda íslensku geitarinnar

Kristbergur Pétursson sýnir myndir, teikningar og skúlptúra sem eru bæði landrit og handrit.

Hrönn Björnsdóttir fór loksins vestur á firði og varð fyrir miklum hughrifum eins og sjá má.

Sjálf hef ég gert mér metoo byltingu að yrkisefni og sýni nokkar sögur af konum sem íhuga örlög sín.

Hjartanlega velkomin öll og njóltið heil.