Nekt og nærvera í Anarkíu

Allar myndirnar á sýningunni í Anarkíu, Hamraborg 3a eru til sölu!

Opið miðvikudaga – sunnudaga kl 15-18

Með hjartað í lúkunum 150×100 akrýl lá striga

Hver er ég? 150×100 Akrýl á striga

Nekt og nærvera

 

Þessa dagana stendur yfir sýning Jóhönnu í Anarkíu listasal Nekt og nærvera. Hún stendur yfir til 23. apríl nk.

Jóhanna V. Þórhallsdóttir söng og stjórnaði kórum um árabil. Tónlistin var vettvangur hennar og listform. Á síðustu árum fann hún sér liti og léreft og nýjan farveg fyrir tilfinningar sínar.

Hugurinn var eins og uppistöðulón sem opnaðist. Alls konar kynjaverur og löngu gleymd atvik streymdu fram á strigann. Tjáningin hafði breyst en einlægnin var söm við sig. Hvort heldur Jóhanna söng eða málaði var hún alltaf skemmtilega, rauðhærða stelpan úr Háaleitishverfinu sem tók þátt í leikjunum með krökkunum, samdi lög, spilaði á gítarinn og velti því fyrir sér hver hún væri?

Með þessari sýningu leitast Jóhanna við að svara spurningum æskunnar og kasta fram nýjum. Lífið varð aldrei eins og maður ímyndaði sér heldur kemur alltaf á óvart í öllum sínum fjölbreytileika. Mestu skiptir að fylgja hjartanu og standa undir þeim  ákvörðunum sem teknar hafa verið. Einu sinni virtist lífið og tíminn sem framundan var,  endalaus. Eftir því sem á ævina líður verða endalokin nálægari. Hjartað er engin eilífðarvél heldur vöðvi sem með tímanum þreytist og leggur upp laupana. Nýleg veikindi setja mark sitt á þessa sýningu. Nekt og nærvera leggja áherslu á það eina sem við vitum með vissu. Við fæðumst og yfirgefum þennan heim nakin. Með sjálfum sér þarf hver lengst að ganga. Maðurinn leitar stöðugt nýrra leiða til að staðfesta eigin tilveru fyrir sjálfum sér og öðrum.

Jóhanna sýnir myndir  úr eigin lífi og virðir þær fyrir sér jafn forviða og aðrir. Þetta ferðalag varð öðruvísi en ætlað var í upphafi. Við því er ekkert að segja heldur halla sér aftur í sætinu, spenna beltið og bíða eftir næsta flugtaki.

ÓG.

 

Vorkoma-vorkona 85×70 akrýl á striga

Hraunmey 85×70 akrýl á striga