Frönsk stappa úr saltfiski

frönsk saltfiskstappa

Forsaga stöppunnar er í minningunni sisvona;

Árið er 1996 og það er sumar á Ísafirði. Ég fór vestur til að syngja í brúðkaupi en var kyrrsett til að opna kaffihús. Það var örugglega komið mitt sumar þegar ég kom vestur. Tjöruhúsið var nýuppgert og það vantaði manneskju til að prufukeyra. Hvort ég var til!  Vinir mínir hjálpuðu mér að leggja línurnar. Ég skyldi baka brauð. Það var eitthvað sem ég kunni. Átti fulla poka af fjallagrösum svo ég ákvað að setja fjallagrös í brauðið. Ég veit að það var galdur í grösunum, því að við Gummi sem var rétt eins árs og Hildigunnur þá 13 ára vorum sérlega heilsuhraust þetta sumar.  Borðuðum enda grasabrauð alla daga. Eitthvað meira var um góðgæti hjá mér þetta sumar. Jana frænka, sérlega skemmtileg og góð kona, frænka Margrétar vinkonu minnar kenndi mér að baka klatta.  Ég varð sumsé að muna að snúa þeim ekki of hratt við… ég átti það til að vera of snögg stundum.( og á jafnvel enn þann dag í dag)  Svo var ég með rjómakökur og súkkulaðikökur, kaffi og heitt súkkulaði. Oft gekk mikið á. Hildigunnur var “stuepige” og reddaði oft málunum. Svo passaði hún bróður sinn líka!  

En þarna á Ísafirði, Tjörusumarið góða, lærði ég að búa til saltfiskstöppuna frönsku sem hefur æ síðan fylgt mér. Og síðast í gær skellti ég í eina. Það var franskur ferðamaður á ferðalagi í Neðstakaupstað sem sá allan saltfiskinn útbreiddan á hlaðinu og kenndi mér uppskriftina. 

Hún er svona.

 

Soðnar karftöflur  3-5 á mann, (fer eftir stærð)

soðinn saltfiskur, 1 til 2 stykki á mann. 

Maður verður svolítið að sirka þetta út.  Síðan hitar maður olívuolíu í potti og setur sirka eitt hvítlauksrif fyrir hverja manneskju sem ætlar að borða hjá þér og stappar svo fiskinum og kartöflunum saman við. 

 

Með þessu má hafa salat eða soðið grænmeti.

 

Verði ykkur að góðu