Svíþjóð og Grikkland á 14 dögum!

 

Jæja góðir hálsar! Mikið var gott að koma heim á lengsta degi ársins uppúr klukkan tíu um kvöldið í birtuna og fegurðina! Ég ætlaði ekki að ná mér niður! Þá vorum búin að vera á ferðalagi í fjórtán daga! Við flugum fyrst til Kaupmannahafnar og tókum lestina yfir til Málmeyjar og fengum okkur bílaleigubíl. Þaðan lá leiðin til Gautaborgar,með örstuttu stoppi hjá Elsu vinkonu minni, sem býr í Lilla Uppåkra, á Skáni, einum fegursta stað Svíþjóðar. Elsa tekur alltaf á móti mér með hlýju og örlæti! Við brunuðum síðan til Gautaborgar að heimsækja dóttur Óttars, Kristínu, eiginmann hennar, Peter og yndislegu dætur þeirra tvær, Freyju og Signe. í Delfí
Við dvöldum í Gautaborg í 4 daga og nutum þess. Við fórum í Liseberg, sem er draumur allra barna, á hvaða aldri sem er! Óttar og Peter fóru meiraðsegja í Heliz sem er nýja tryllitækið í Liseberg. Óttar var fölbleikur það sem eftir var dagsins, en stóra kikkið hjá mér var að fara í vatnsrennibrautina. Ég er ekki alveg þessi tryllitækjatýpa! Við fórum einn dag á Marstrand, með Kristínu og stelpunum, gengum þar um og nutum fegurðarinnar. Það var góður dagur. Mér finnst alltaf skemmtilegra og skemmtilegra að koma til Gautaborgar. Staðurinn á alltaf sérstakan stað í minningunni. Ég heimsótti ég Þóri bróður minn og Sólveigu, um jólin 1980, eða var það 1979? Tók lestina frá Kaupmannahöfn, með bók eftir Emmu Goldman, um anarkisma. Þá var ég á leiðinni í Háskóla Íslands. Ég vissi ekki þá að ég ætti eftir að fara allt aðra leið í lífinu. Þórir og Solla bjuggu á dr. Lindsgatan; hann var í framhaldsnámi í heimilislækningum og Sólveig mágkona, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir var að vinna á spítala, ég held bara á Sahlgränska. Við áttum góða daga,  hlustuðum á Arja Saijonmaa syngja Jag vill tacka livet, það var allveg splunkunýtt þarna.  Brandenburgarkonsert Bachs fullkomnaði jólastemninguna. Frænkur mínar, Kristín og Jóhanna, voru mikið uppáhald. Þær eru núna tveggja barna mæður báðar tvær! Beibe beib. „Tíminn líður, trúðu mér. taktu maður, vara á þér.“ Frá Gautaborg fórum við aftur til Lilla Uppåkra, en núna með stuttu kafffistoppi hjá vini okkar Gunnari Þorsteinssyni sem býr í Helsingborg. Hjá Elsu lentum við í miklu flatköku- fjöri. Smurðum heilan helling  með hangikjöti, en Elsa var að útskrifa nemendur í skólanum þar sem hún er rektor, og vildi bjóða kennurum skólans uppá íslenskt góðgæti! Þetta var eitt af þessum góðu kvöldum, þar sem allt er á fullu, við að smyrja, nágranninn kom að búa til eggjasalat, þau Elsa og Torsten að skrautrita á verðlaunabækurnar. Svo endaði þetta á einni alsherjar grillmáltíð, liten fest på svenska!  Óttar, Signe, Kristín og Freyja
Freyja og Signe í Liseberg
Freyja og Signe
Aþena kom okkur skemmtilega á óvart! Falleg borg, full af vingjarnlegu fólki. Fyrstu dagarnir fóru í að skoða Akrópólis, Parþenon, hof Pallas Aþenu, Agórurnar, söfnin. Maður var meira að segja farin að rifja upp tímana í MH í gamla daga hjá Jóni Hnefli Aðalsteinssyni í goðafræðinni. Og  sýningar á Evripídesi með Leifi Þórarins, Ingu Bjarna og Bríeti Héðinsdóttur; Trójudætur og Medea. „Ó seg þú mér máttuga söngvadís, þá sögu myrka af harmi.“  Og að fara til Delfí. Þar stóð maður á tindinum og í huganum sönglaði „Nú ríkir kyrrð í djúpum dal.“  Í safninu í Delfí hitti ég bræðurna Klebis og Bíton sem Pólymedes frá Argos gerði um 625-590 f. Kr sem við veltum fyrir okkur í listasögunni í Myndlistaskólanum. Við skoðuðum einnig 3 eyjar í Grikklandi, Hydra, Poros og Aegina, ég hitti gamla vinkonu frá Englandsárunum,  Dorinu Stathopoulou-Papadaki, sem ég hef ekki hitt í 35 ár, hitti Lillu vinkonu Margrétar og Jóns og fleira og fleira.  Hápunktur ferðarinnar var að sjá Toscu, Puccinis í hinu ævaforna útileikhúsi Odeon Heródes Attikus, í hlíðum Akrópolis. Stjórnandi sýningarinnar var Lukas Karytinos. Hlutverk Toscu söng Cellia Costea og Scarpia song Dimitri Platanias. Ég veit ekki hver söng Cavaradossi, því Rubens Pelizzari sem var auglýstur var ekki á sviðinu,heldur annar Cavaradossi, og sá var asískrar ættar,  söng alveg ótrúlega vel. Ég sat í hringleikahúsinu, undir beru lofti í hitanum í Aþenu, sveitt, með gæsahúð allan tímann! Söngvararnir og kórinn, búningarnir og sviðið, og sviðsmyndin! Leit upp á milli þátta og horfi á tunglið sem bar við Akrópólis hæðina! Á hæðum Akrópólis stendur tíminn kyrr. Það var nýtt fólk á sviðinu. En ég hefði getað setið þarna fyrir 2.500 árum í troðfullu leikhúsinu og verið að horfa á Medeu. Listin er eilíf og lífið er stutt.A presto  Giovanna
Delfí
Tosca 16.júní 2015
35 árum síðarOdeon Herode Atticus 16.júní 2015
Aþena