oil painting

Gróa á Leiti fær uppreisn æru!

Ég var viðstödd frumflutning á Peter Grimes í Hörpu í gær. Í konsertuppfærslu. Ég lifði mig gjörsamlega inní tónlistina, sem heltók mig eftir smá stund. Inní þetta fléttaðist líka nostalgía hjá mér. Við settum upp Rape of Lucretia eftir Britten í óperudeildinni í RNCM, í Manchester í gamla daga og ég æfði og söng mörg laga hans í skólanum. Ég var líka í Aldeburg, sem er sögusvið Peter Grimes,  á námsskeiði í Britten-Pears skólanum og svo er Billy Budd er alltaf gömul uppáhaldsópera.

Ramminn á sýningunni í gær, var skemmtilegur, miðað við konsertuppfærslu, með skuggamyndasýningu sem umgjörð sýningarinnar. Hljómsveitin var í aðalhlutverkinu, og söngvararnir sungu fyrir framan sveitina, og höfðu þar af leiðandi engan kontakt við stjórnandann.  Söngvararnir stóðu sig vel og héldu sínu striki, þótt Daníel væri þarna bakvið þá. 32 manna kórinn var á bak við hljómsveitina í beinu sambandi við stjórnandann og söng þétt og vel. Tvær erlendar stjórstjörnur og ein íslensk voru í aðalhlutverkum, Stuart Skelton í hlutverki skiptstjórans Peter Grimes, og Judith Howarth í hlutverki Ellen Orford, og Ólafur Kjartan Sigurðarson fór með hlutverk Balstrode. Þau voru alveg frábær. Ekkert smáhlutverk, hlutverk Peter Grimes! Stuart var aðeins farinn að þreytast á háu tónunum í lokin, sem var kannski ekki skrýtið, þar sem generalprufan hafði verið sama morgun! Daníel Bjarnason hljómsveitarstjóri, stóð sig vel með sprotann.  Það var smá svona ryþma-órói milli hljómsveitar og söngvara í síðasta þætti, en annars gekk sýningin vel. Oddur Arnþór Jónsson, Snorri Wium og Viðar Gunnarsson heilluðu mig uppúr skónum, en önnur hlutverk voru sungin af Hönnu Dóru Sturludóttur, Hallveigu Rúnarsdóttur, Lilju Guðmundsdóttur, Ingveldi Ýr Jónsdóttur, Garðari Thór Cortes og Jóhanni Smára Sævarssonar.

Óperan er samtímaverk, samin árið 1945 og er byggð á samnefndu harmljóði Georgs Crabbe frá upphafi 19. aldar. Sögusviðið er sjávarþorp þar sem lífsbarátta íbúanna er samofin hverfulleika hafsins. Skipstjórinn Peter Grimes verður fyrir þeirri ógæfu að tveir ungir piltar sem hann ræður sér til aðstoðar týna lífinu hver á eftir öðrum. Í kjölfarið er Grimes afneitað af bæjarbúum. Í raun má segja að ádeila óperunnar missi marks, vegna þess að Grimes er hinn versti maður, sem pínir drengina og viðbrögð þorpsbúa því fullkomlega eðlileg. Sagan er barnaleg að því leiti að það er verið að reyna að vekja samúð með Peter Grimes sem er mjög ósympatískur maður, hálfgerður Bjartur í Sumarhúsum, miskunnarlaus harðstjóri og barnaþrælahaldari sem hugsar fyrst og fremst um eigin hag. Maður fær ekki samúð með skepnuskapnum, þegar hann tekur drenginn úr messunni, svo hann geti grætt pening fyrir Grimes. Maður fær ekki samúð með gerandanum. Maður fær einna helst samúð með hinni meðvirku ástsjúku kennslukonu sem heldur að hún geti gert góðan eiginmann úr illmenninu. Það hefur verið talað um að þessi ópera sé tilvísun í ofsóknir gegn samkynheigðum. Óperan er orðin 70 ára gömul. Ef óperan á að fjalla um fordæmingu, Gróu á Leiti, kjaftasögurnar, svo maður vísi nú í líf Brittens, tekst það ekki sem skyldi. Sem gerir lokakaflann of langan og áhorfendur verða fegnir þegar Grimes drekkir sér og fær makleg málagjöld.
En mikið er nú samt ánægjulegt að heyra nýjar óperur fluttar á íslenska sviðinu. Mættum við fá fleiri nýjar (!)  óperur að heyra?