Á Símonar

Það er þjóðarsorg í dag. María komst ekki áfram í Júróvisjón. Ég sakna alltaf Guðrúnar Á. Símonar á svona dögum. „Hvað hefði Guðrún Á. sagt um sönginn hennar Maríu í gær?“ Ég hef svosem ekki hugmynd um hvað hún hefði sagt. Get ekki einu sinni reynt að finna út úr því. Guðrún kom manni nefnilega alltaf á óvart. Kannski hefði hún ekki einu sinni minnst á þetta.
Mér fannst hún María standa sig alveg þokkalega á stóra sviðinu, þrátt fyrir að maður heyrði að hún væri svolítið taugatrekkt og nervös. Ég velti því fyrir mér, hvort hún væri ekki bara kvefuð stelpan, eftir að vera berfætt að þvælast um Vínarborg. Eða á tásunum, einsog það heitir núna. Það er þetta taugastress sem svo margir tónlistarmenn glíma við. Og einmitt, ef maður er pínu kvefaður, eða heldur að maður sé að fá í hálsinn, þá fara taugarnar virkilega af stað. Ég man þegar ég var að læra útí Englandi hvað ég var oft stressuð á sviðinu. Og ekki bara ég heldur margir aðrir nemendur skólans. Ein vinkona mín sem var, enskur víóluleikari, gleypti t.d. alltaf nokkrar róandi fyrir prófin og tónleika. Mér fannst það nú alveg ótrúlega skrýtið, á þessum tíma að vera að fá sér róandi fyrir tónleika. Ég var nú svo græn þarna í kringum 1985, þekkti bara magnyl. En aftur að stressinu. Það var ekki fyrr en ég var farin að stjórna kórunum öllum, og hvetja kórfólkið mitt  til þess að geyma stressið heima, að ég sjálf ákvað bara að hætta þessu stressi þegar ég væri að syngja. Ég sá að það borgaði sig ekki að vera að stressa sig. Gat einhvern veginn horft þannig á það. Það hjálpaði mér amk. að taka ákvörðun um þetta. Æi já. Söng-lífið getur oft verið snúið. Og svo við víkjum aftur að Maríu, held ég að lagið sem hún söng, hafi ekki hjálpað til. Hún þurfti að byrja a capella áður en hljómsveitin kom inn sem gæti verið stór stressfaktor.
Ég hugsa oft til Guðrúnar Á. Símonar þegar ég heyri skrýtna raddbeitingu hjá stjórnmálamönnum, söngvurum, og ungum, já segi og skrifa ungum, leikurum. Sakna þess að heyra ekki í konunni sem sagði sína meiningu. Eins og ég er klædd hét enda ævisagan hennar.
A presto

Giovanna